„ÞAÐ ER GAMAN ÞEGAR GESTIRNIR OKKAR ERU ÁNÆGÐIR“
Umfjöllun um Frostastaði sem birtist á Feykir.is 8.11.2020
Frostastaðir sveitagisting í Blönduhlíð í Skagafirði er í eigu Þórarins Magnússonar, bónda, og Söru R. Valdimarsdóttur, kennara, sem búsett eru á Frostastöðum, um 12 kílómetra frá Varmahlíð. Þau sjá bæði um reksturinn en einnig hafa tvær dætra þeirra, Inga Dóra og Þóra Kristín, hjálpað til við framkvæmdir og rekstur ásamt tengdasonunum Edu og Rúnari. Það er ekki langt síðan gamla húsið var tekið í gegn og farið var að bjóða gistingu í þremur vel útbúnum íbúðum.
„Það má reyndar segja að þessi gisting hafi bara orðið því aðstæður réðu því að á Frostastöðum var stórt íbúðarhús, byggt 1947, sem stóð að mestu autt, hafði ekki fengið viðhald í áratugi og var í afar slæmu ásigkomulagi,“ segir Sara. „Húsið á áhugaverða sögu því í því bjuggu fjórir bræður, allir bændur, ásamt fjölskyldum sínum. Þar ólust upp fjölmörg börn auk allra sumarbarnanna sem þar dvöldu um styttri eða lengri hríð. Þegar fyrst var búið að taka ákvörðun um að gera húsið upp þá kom það eiginlega af sjálfu sér að nýta það sem gistiaðstöðu.“